Ég sótti um starf í dag

Ótrúlegt hvað sjálfmyndin er síbreytileg. Ef ég er að sækja um starf sem ég veit að ég höndla vel þá er ekki séns að fólk myndi hugsa að ég væri með egómínus. Auðvitað á ég bara ekkert að sækja í störf sem gera ráð fyrir java og css kunnáttu.

En það er svolítið gaman að lesa sér til um hvað heilinn getur fokkað í manni. Hann gerir engan greinarmun á hvort að um sé að ræða alvöru hættu eða hvort við höldum bara að við séum í hættu. “Áfall” getur verið hvað sem er í rauninni. Það þarf ekki að vera hreint ofbeldi eða …það getur bara verið misskilningur þegar þú ert 6 ára og heldur að þú sért yfirgefin að eilífu og grætur þig í svefn ef foreldrar þínir hafa ekki heyrt þig kalla á sig í óveðri. Og svo getur þú bara verið í ruglinu á fullorðinsárum með mega tremma yfir að vera yfirgefin og getur ekki haldið í kæró því þú verður alltaf allt of þurfandi og eitthvað.

Ekki það að ég sé nídí. Er það alveg ekki sko. Er mjög kúl. Var bara að hlusta á bók sem tók þetta sem dæmi. Í alvöru. Get svariða. Getting past your past heitir hún.  Ætla að hlusta á hana og sjá hvort hún geti hjálpað mér eitthvað með bingókúluvandamálið mitt.

 

Loddaraheilkennið

Þegar ég talaði um loddaraheilkennið við klára sjálfræðinginn minn hristi hún nett hausinn og sagði mér að alltaf væri nú verið að finna ný nöfn á sama hlutinn. Hún sagði að þetta væri einfaldlega minnimáttarkennd. Ég sagði skömmustulega já ofan í hálsmálið og fannst eins og ég hafi verið að reyna að gera vandamálið mitt eitthvað töff.

Svo byrjaði ég að tala um eitthvað agalega dramatískt svo hún myndi nú nenna að tala við mig og hjálpa mér. Djók. Hún er æði. En loddaraheilkennið mar…

Hér er frábær útskýring á minnimáttarkennd aka loddaraheilkenni.

Sjálfsmynd

Sjálfsmynd, hvernig við horfum á sjálf okkur, hvað okkur finnst um sjálf okkur er oft ekki á rökum reist. Þetta finnst mér magnað og er að upplifa það á eigin skinni daglega þessa dagana.

Fyrir tíu árum var ég 2007feit. Ég var alveg of feit og átti eftir að verða feitari næstu ár en einhvernveginn fannst mér ég alltaf bera það betur en hitt offeita fólkið. Og það er víst staðreynd að mjög margir á offituskalanum telja sig bera það betur en aðrir og neita að horfast í augu við hættuna sem það er að vera feitur. Mig minnti meira að segja að ég hefði ekkert verið svo feit en sá mig svo á myndbandi og fékk nett…djók….ýkt feitt sjokk.

Þegar ég varð 40 kg yfir kjörþyngd ákvað ég að ég væri búin að tapa fyrir fullt og allt og byrjaði í fráhaldi. Fráhaldið var mér auðvelt. Það var eins og ég hefði bara ratað inn í einhver víð og breið glergöng með fallegri tónlist með öllum sem ég unni en fermingarborðið með kræsingunum var fyrir utan göngin sem og allt draslið sem ég sagði mér að ég væri ekkert að borða og skildi ekki af hverju ég væri 104 kíló. #afneitun

Allavega… um leið og ég byrjaði í fráhaldi breyttist sjálfsmyndin. Um leið! Ég var ennþá 100 kíló en ég vissi að ég væri að borða rétt. Mataræðið var fullkomið og ég var ekki með niðurrif né samviskubit oft á dag. Þetta olli því að mér fannst líkaminn bara vera svolítið frábær, ég aftengdi við skömmina yfir að vera feit og ég komst í andlega kjörþyngd. Það var alveg æðislegt og ég man alveg eftir þegar ég horfði á myndbandið af mér dansandi í Kringlunni að ég var æðislega hissa að ég væri ekki þvengmjó þar því mér leið þannig. Ég var í 4 ár að losna við 40 kg en hvern einasta dag af þessum árum tengdist slæma sjálfsmyndin mín líkamanum ekki baun. Ég var með silfurlungu og metaltungu og endalaust þakklát fráhaldinu. Ég fann bara eitthvað annað til að hafa áhyggjur af eins og að ég kynni ekki java eða css og var hrædd um að ég væri of vitlaus til að læra það en það tók ekki nærri því eins mikinn tíma og allt offitusjálfshatrið.

Í janúar byrjaði ég aftur að borða sykur og allar tilfinningarnar og minningarnar um líkamssmán mína frussuðust yfir mig eins og öldur í óveðri. Stundum er eins og ég skoði líkamann utanfrá…ég er með miklu stærri brjóst en fyrir mánuði (eini plúsinn kannski), ég sparka í bumbuna í leikfimi, allt er aðeins erfiðara og það sem versta er… mér finnst ég strax vera ómerkilegri en aðrir. Ég er á leiðinni í bústaðaferð með öðrum Ósurum og við erum fjórar vinkonur sem ætlum að vera memm þessa helgi. Allt í einu skýst í hausinn á mér mynd af okkur fjórum, þær allar mjóar og sætar og svo ég á hliðarlínunni og hugsaði óvart hvað þær væru nú góðar að leyfa mér að vera með.

Þessi tilfinning kemur beint úr grunnskóla. Þetta er brengluð sjálfsmynd frá því ég var lögð í einelti. Gaman að segja frá því að þegar ég var sem feitust fór ég einmitt á reunion hjá grunnskólanum mínum og ein dirfðist að segja við mig: “Hvað gerðist eiginlega. Af hverju ertu svona feit? Þú ert feitari en ég var á steypinum skiluru…” Good times skiljiði. Sem betur fer var annað reunion vikuna sem ég var mjó og gellan sem sagði þetta var orðin feitari en ég. Ég öskraði náttúrlega inní mér IN YOUR FACE FLANDERS. Aaaaahhh… uppreisn æru er betri en bjór.

Sjálfmynd kemur staðreyndum ekki rassgat við en þegar maður er feitur þá ber maður sárin sín utan á sér og fólk horfir á þig öðruvísi og kemur fram við þig öðruvísi. Nú hef ég prófað að vera í kjörþyngd og ég er að segja ykkur… samfélagið kemur fram við þig eins og þú skiptir meira máli þegar þú ert í “réttri stærð”. Og ef samfélagið setur þig skör lægra en aðrir sem hafa fyrir því að borða rétt og hreyfa sig af hverju í himninum ættir þú ekki að hata þig. Right? En sjálfmyndin er annað. Hún skiptir langmestu máli og ef við föttum að hún er tengd tilfinningum en ekki staðreyndum þá erum við á réttri leið.

Það er ekki góð tilfinning að finnast maður vera lægri í virðingarstiganum en aðrir og ég ætla mér að díla við þessa fíkn í sælgæti hvernig sem ég geri það. Ég veit að þegar ég uppræti meinið sem kallar á þessa fíkn mína í nammi, sígó, pillur og áfengi þá taka við betri tímar. Þegar ég uppræti meinið og læri að lifa með því mun sjálfsmyndin mín ekki tengja við vondar tilfinningar og þarmeð fylgja mér í núinu. Eða ég vona það. Ætla að ræða það við fíknifræðinginn sem ég fer til á morgun. #virk #meðferð

EMDR anyone? Yes? No?

btw. Erla í Vitanum,  ég dýrka þig! 

 

 

Svefnleysi

Ég hef það fyrir reglu að taka ekki svefntöflu þegar ég á að vakna með strákunum. Við hjónin erum að skipta tímanum soldið á milli okkar og ég vaknaði með þá alla síðustu viku. Svo fór ég bara út úr húsi til að sofa. En þar sem ég hef verið andvaka eða með það miklar draumfarir að ég fæ litla hvíld meira og minna allar nætur þá ákvað ég að sjá við líkama mínum og tók eina litla róandi kl. 5. Ég rétt svo gat slafrað í mig mat og klukkan sjö var ég svo steinsofnuð að það var ekki hægt að vekja mig kurteisislega.

Svo vaknaði ég súperhress um miðja nótt og setti öll tækin mín í samband og gekk frá fatahrúgu og svoleiðis. Voða hress og afskaplega heilbrigð. Eftir klukkutíma var ég bara aftur sybbin og svaf til átta. Það er líka ógeðslega gott að sofa með svefngrímu og með eyrnartappa. Þá er maður svo gjörsamlega einn eitthvað. Dýrkaða.

Er núna að byrja á nýju námskeiði. Huglæg atferlismeðferð við lágu sjálfsmati. 

Þarf eitthvað að díla við þetta loddaraheilkenni í mér. Mér líður einhvernveginn eins og ég verði ekki heil nema kunna java og css. En þúst…það er fullt af fólki sem kann ekki java og css og líður bara vel. Fullt alveg. Hvað er ammér?