Læstar bloggfærslur

Hæ. Ég hef þörf fyrir að skrifa tilfinningarnar mínar frá mér. Stundum er ég að springa. Ég hef ekki bloggað almennilega síðan mér var bent á að „börnin gætu skaðast“ af því að gúgla mig og því hef ég ákveðið að læsa sumum bloggfærslum. Ég veit að ég hef hjálpað einhverjum þunglyndissjúklingum með kvíðaraskanir og alvarlegar geðsveiflur því stundum er bara ógeðslega gott að geta lesið að einhver annar hafi það jafn skringilegt og maður sjálfur. Að skrifa er mín núvitund og ég hef þörf á að færa orðin mín úr höfðinu á mér. En mér finnst ekkert spennandi að það sé gúglanlegt.

Þannig að ef þú hefur áhuga á að lesa áfram hafðu þá samband og ég gef þér aðgang. Eina sem ég vil fá að vita í staðinn er hvort þú ert alvöru manneskja af hverju þú vilt lesa.

Underworld #2

Ég er eiginlega að springa mér finnst þetta svo frábært. Ég kom heim frá honum klukkan hálf níu í morgun og fór náttúrulega beint á netið að tékka á gæjanum fyrst hann segist vera svona frægur. Fann einhverja umræðu um að Darren Price mixið af Born Slippy sé talið vera best heppnaða mixið af öllu sem var gefið út og ég tapa mér yfir hvað hann sé kúl. Þeir eru sko þrír í hljómsveitinni og svo eru tveir plötusnúðar sem eru alltaf með þeim á tónleikum og mixa þá sem mest í stúdíóum og svoleiðis. Þá fór Lísan að pæla…..ó……er hann bara hljóðmaður og rótari?? Nei, nei…..þá spilar hann með Underfokkingworld. Eins gott því sambönd mín “þurfa að vera lífleg, skapandi og framsækin. 

– Valdir textar úr Vaknað í Brussel í tilefni komu Underworld á Sónar 2018

Underworld á Sónar.

Af því tilefni verða valdir kaflar úr Vaknaði í Brussel birt með góðfúslegu leyfi Betunnar á Betunni þangað til að tónleikum kemur.

„Þá heitir gæjinn Darren Price og kann eiginlega enga ensku. Djöfullinn. Þannig að ég verð að fara að tala frönsku. Arg! Eftir bjórinn býður Darren mér heim því hann vildi sýna mér einhverjar plötur og að sjálfsögðu þigg ég það með þökkum enda sunnudagskvöld og ég ekki ofurölvi þannig að ég á ekkert eftir að missa af lestinni í fyrramálið. Hann býr niðri í miðbæ í einhverju penthúsi og uppi um allan vegg eru myndir af honum og Carl Cox, honum og Goldie, honum og Jeff fokking Mills!! Og allt myndir úr einhverjum tímaritum tekið á einhverjum reifum sem hann hefur verið að spila á. Hann segir mér semsagt að hann sé plötusnúður og vinni mikið í London og hefur unnið með Underworld í tíu ár og eitthvað þar fram eftir götunum. Mér finnst æðislegt að hann sé skotinn í mér og hlusta með athygli á allt sem hann leyfir mér að heyra…“

Síðasti DAM tíminn

Er öll að peppast upp bara. Sem er gott. Fór í síðasta DAM tímann og það sem mér þykir vænt um hópinn minn er held ég frekar einstakt. Við erum 11 manns á bókstaflega öllum aldri og náum þvílíkt saman að við getum ekki hætt að hittast þó að námskeiðið sé búið. Ef ykkur býðst að fara á DAM námskeið hjá Margréti Bárðardóttur þá mæli ég eindregið með að stökkva á þá lest.

Það sem ég hef helst notað úr námskeiðinu er að fara yfir það sem veldur mér uppnámi og horfa hlutlaust á það. Ekki dæma tilfinningarnar því þær eiga rétt á sér. Allar tilfinningar eiga rétt á sér því við fáum þær en svo er bara málið hvað maður gerir við þær? Eibsjittar maður í reiði og æpir á viðkomandi eða internetið?

Queen B sagði „im not gonna dish you over the internet, cuz my mama taught me better than that.“ ótrúlegt að ég hafi ekki staðist það eins mikið og ég er með þessa línu á heilanum. Sjæse. En ekki meir. Neibb. Nú er ég bara búin að loka blogginu og er að tala um eitthvað allt annað en það sem gerði mig tjúll fyrir nokkrum mánuðum.

En já, tilfinningarnar.

Hlutverk tilfinninga er að hvetja okkur til að bregðast við einhverju. Þær spara tíma til að bregðast hratt við í mikilvægum aðstæðum. Þetta er beisikklí forritað inn í líffræðina. Fight or flight. Ég man þegar mamnma vaknaði ekki einu sinni úr sykurfalli að þá var ég on it alveg þangað til hún var komin í lag, ég mætti í vinnuna, kláraði morgunverkin og um leið og það kom pása í vinnunni brotnaði ég. Fór inn á baðherbergi skjálfandi eins og hrísla og hágrét yfir „hvað ef“ spurningunni stóru. Ég var mjög þakklát fyrir að hafa ekki frosið en það hefði alveg eins getað gerst.

Við sýnum líka tilfinningarnar framan í okkur en við erum kannski ekki eins góð í að lesa andlit og við höldum. Sá sem er óöruggur les oft kolrangt úr viðbrögðum annarra. Og ef samskipti bera óþægilega þyngd fortíðarinnar þá getur tónn sagt miklu meira en orðin sem eru sögð. Stundum vill maður halda friðinn en tónninn kemur upp um mann og þá verður til einhver kergja.

Hnúturinn í maganum er tilfinning sem gæti gefið okkur mikilvægar upplýsingar um staðreyndir en gæti líka verið ótti við það sem koma skal og sagt absolútt ekkert rétt um upplýsingarnar sjálfar.

Vandamálið hjá mér hefur verið að láta sem tilfinningar séu vísbendingar um staðreyndir. Tilfinningar eru engan veginn staðreyndir. Ef ég er óörugg þýðir ekki að ég sé óhæf. Þess vegna þarf ég að skoða betur hvað gerðist á undan ákveðinni tilfinningu.

  • Hver var kveikjan að tilfinningunni, hvaða atburður átti sér stað sem kom tilfinningunni af stað?
  • Gerðist eitthvað rétt áður sem gerði mig viðkvæma fyrir atburðinum? (Var ég svöng eða þreytt?)
  • Er hægt að túlka atburðinn eða var þetta eitthvað mjög beisikk?
  • Hver var líkamleg upplifunin? Varð mér heitt kalt? Fékk ég fiðring eða hnút?
  • Hvert var viðbragðið? Hvað vildi ég gera eða segja?
  • Hvað sagði ég?
  • Hvað gerði ég?
  • Hver voru eftiráhrif tilfinningarinnar? Hugarfar? Komu aðrar tilfinningar í framhaldi? Þurfti ég að bregðast við því sem ég hafði sagt í viðbrögðum mínum við tilfinningunni?

Það er ógeðslega gott að skoða þetta þegar maður er að díla við eitthvað sem er að bera mann ofurliði.

Og í næsta tíma ætlum við að skoða hvernig við tékkum staðreyndir 😉

 

Óvænt erfiði

Ég bjóst ekki við að eiga bágt um jólin. Gerði það alveg ekki. Hlakkaði til að eiga gömlu góðu jólin með foreldrum mínum og bróður. Svo var ég svo hamingjusöm og vongóð um að þetta myndi bara allt vera í lagi. Fékk smá tilfinningabakslag. Svo annað. Og annað þangað til ég gerði mér loksins grein fyrir að ég væri að arka niður villigötur. Nú er ég búin að ná því og ég get bara horft á kertaljós, hlustað á fallega tónlist og grátið. Ef ég er ekki að gera það þá er ég dofin að stara út í loftið. Ég gaf börnunum mínum ekki þau jól sem þau áttu skilið. Ég er sorgmædd yfir því. Fjölskyldan mín gaf mér eins falleg og góð jól og þau mögulega gátu. Ég elska þau svo svo mikið og mér þykir hræðilega leiðinlegt að vera svona. Ég fór ekki í karókíið. Ég fór ekki í matarboð. Ég hitti ekki DAMvini mína. Ég faldi mig bara. Ég vona að næstu jól muni hafa minni áhrif á mig. Ég vona að mér batni á næsta ári.

2017 má hoppa upp í rassgatið á sér.

Það sem enginn sér

Í dag eru það litlu hlutirnir sem gleðja. Það veitir mér alltaf ákveðna vellíðan þegar ég næ að snýta úr mér þykku grængulu hori. Kíki í snýtuklútinn og kann að meta það sem ég sé… svona eins og ég sé smá sigurvegari. Líka þegar ég hósta svona djúpum blautum hósta. Ekki eitthvað þurrt píp. Nei… ég kann að meta það þegar hóstinn skekur allan líkamann og losar í burtu skítinn frá iðrum heljar.

Það það sem er svo gott við að vera kbebaður. Maður finnur og sér allt það illa sem býr í manni og sér með berum augum þegar maður losar það út. Annað en alla aðra daga þar sem maður dílar bara við kvíða, þunglyndi og annan ósýnilegan „aumingjaskap“.

Lifi kbebið!!